Skógræktin Siglufirði
Skógurinn í Skarðdal er nyrsti plantaði skógur á Íslandi. Upphaf hans má rekja til þess að árið 1950 fékk Skógræktarfélag Siglufjarðar suðurhluta Skarðdalslands frá Siglufjarðarbæ, um 5,5 hektara svæði. Í Skarðdalslandi hafði Skagfirðingafélagið (átthagafélag) hafið gróðursetningu og hélt áfram að gróðursetja í það land ásamt skógræktarfélaginu. Svæðið var girt á árunum 1950-1951 og fyrstu plönturnar gróðursettar 1951. Fram til 1980 voru rúmlega 100 þúsund trjáplöntur gróðursettar í þetta svæði – mest sitkagreni, því næst blágreni, birki og rauðgreni, en einnig hvítgreni og þrjár gerðir furu – fjallafura, skógarfura og stafafura, mest stafafura. Einnig var sett niður lerki, reynir, ösp og víðitegundir.